Náttúruefni og fæðubótarefni

Notkun náttúruefna og fæðubótaefna til sjálfslækninga, forvarna gegn sjúkdómum og til að bæta útlit nýtur aukinna vinsælda hér á landi. Talsvert er um að konur velti fyrir sér hvort hægt sé að nota slíkar vörur á meðgöngu eða meðan á brjóstagjöf stendur. Þegar náttúruefni/fæðubótaefni eru notuð er ætíð hætta á að efnin valdi svokölluðum aukaverkunum en þá hefur efnið óæskileg áhrif á líkamsstarfsemi. Áhrifin eru misalvarleg, allt frá því að vera væg upp í að stofna lífi einstaklingsins í hættu. 

Fólk telur oft að lækningajurtir valdi ekki aukaverkunum en slík viðhorf geta haft alvarlegar afleiðingar. Þó löng hefð sé fyrir notkun ýmissa náttúruefna getur oft verið erfitt að greina ýmsar aukaverkanir enda eru þær ekki alltaf þekktar. Einnig geta líkurnar á að náttúruefni valdi aukaverkun verið háðar eiginleikum neytanda svo sem aldri, erfðum og sjúkdómsástandi. Náttúruefni sem notuð eru í læknisfræðilegum tilgangi má flokka í tvennt. Náttúrulyf og fæðubótarefni.

Náttúrulyf

Þau náttúruefni sem fengið hafa markaðsleyfi sem náttúrulyf þurfa að standast jafn strangar kröfur um hráefnis-, framleiðslu- og gæðaeftirlit og lyfseðilsskyld lyf.  Kröfur um verkun, aukaverkanir o.þ.h. eru þó langt frá því að vera í líkingu við þær kröfur sem gerðar eru til lyfseðilsskyldra lyfja en þau gangast undir margra ára rannsóknir. Í dag hafa 9 nátttúrulyf fengið markaðsleyfi hér á landi. Ekki skal nota náttúrulyf á meðgöngu eða við brjóstagjöf nema að höfðu samráði við lækni.

Náttúruvörur og fæðubótarefni

Náttúruvörur og fæðubótaefni eru seld án þess að gæðakröfur séu gerðar til framleiðslu. Framleiðendur þurfa því ekki að staðfesta öryggi og áhrif náttúruvara og fæðubótaefna áður en þau eru markaðssett. Engin trygging er fyrir því að vörurnar innihaldi þau efni og í þeim styrk sem fullyrt er að þær hafi og vörur hafa fundist sem innihalda ekki þau efni sem fullyrt var að þær hefðu. Ófullnægjandi og rangar merkingar valda því að oft er óljóst hvað varan inniheldur. Oft eru virku og eitruðu innihaldsefnin ekki þekkt og þar með er ekki hægt að vita með vissu hvort þau eru til staðar.

Mikið úrval er af náttúrulyfjum, náttúruvörum og fæðubótaefnum hérlendis. Verkun þeirra er á margvíslegan máta og orsökuð af ýmsum innihaldsefnum. Ljóst er að efnin geta bæði valdið vægum og alvarlegum aukaverkunum og hafa þarf ákveðnar varúðarráðstafanir í huga. Almennt séð ættu þeir sem ætla sér að taka þessar vörur að fá óháðar upplýsingar um verkun þeirra, til dæmis að leita til lyfjafræðinga í apótekum. Ef viðkomandi á við sjúkdóm að stríða eða tekur einhver lyf er nauðsynlegt að lækni sé greint frá notkuninni því efnin geta haft áhrif á lyfjameðferðina.

Á meðgöngu eða við brjóstagjöf

Reglan er í raun einföld: barnshafandi konur og konur með barn á brjósti eiga ekki að nota náttúruefni eða fæðubótaefni nema í samráði við lækni. Ástæðan er sú að það vantar upplýsingar um efnin og áhrif þeirra meðan á meðgöngu og brjóstagjöf stendur. Skortur er á upplýsingum um hugsanlegan skaða sem efnin geta valdið og ljóst að áhættan af töku efnanna er meiri en hugsanlegur ávinningur.

Nauðsynlegt er að meta með gagnrýnu hugarfari auglýsingar og umfjöllun um efni sem fullyrt er að ráði bót á ýmsum kvillum. Þegar ákvörðun er tekin um að neyta náttúruvara/fæðubótaefna er mikilvægt að skoða vel allar upplýsingar. Þetta á sérstaklega við um þungaðar konur og konur með börn á brjósti. Hver er að ráðleggja vöruna? Hvaðan koma upplýsingarnar sem viðkomandi hefur? Er þetta einungis almannarómur um að varan henti vel fyrir ófrískar konur?  Er það ef til vill “vinkona vinkonunnar” sem leið vel af því að taka vöruna? Er kannski haldið á lofti kenningunni um að það sem kemur úr náttúrunni sé ekki hættulegt?  Barnshafandi konur og konur með barn á brjósti eiga að hugsa sig mjög vel um áður en þær nota vöru sem sagt er að hafi einhver læknisfræðileg áhrif.  Auðvelt er að fara í næsta apótek og biðja um upplýsingar hjá lyfjafræðingi.

Ég skoðaði nokkrar íslenskar vefsíður þar sem ófrískar konur eru að spyrjast fyrir um ýmis málefni og athugaði hvort þær væru að velta fyrir sér töku einhverra náttúruefna eða fæðubótaefna. Hér er lítil samantekt um þær vörur sem virtust helst vera í umræðunni.

Engifer

Engifer jurtin hefur verið notuð til margra hluta, meðal annars til þess að hafa áhrif á meltingarfæratruflanir, til að lina höfuðverk, minnka bólgu og ýmis einkenni kvefs. Því hefur einnig verið haldið fram að engifer geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki og ógleði hjá ófrískum konum en öryggi engifers við slíkri notkun er óljóst. Talið er hugsanlegt að engifer hafi áhrif á bindigetu testósterónviðtaka í fóstri sem gæti truflað sérhæfandi verkun kynhormóna á heila fósturs. Það skortir rannsóknir á notkun engifers á meðgöngu og við brjóstagjöf og því skulu konur ekki nota engifer við þessar aðstæður.

Trönuber

Trönuber hafa verið notuð til að koma í veg fyrir og/eða lækna þvagfærasýkingu. Þungaðar konur og konur með börn á brjósti eiga ætíð að ráðfæra sig við lækni áður en þær nota trönuberjasafa við þvagfærasýkingu. Ekki er ráðlegt að reyna sjálfslækningu við slíkar aðstæður því nær alltaf er nauðsynlegt að taka sýklalyf og það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef þvagfærasýking er ómeðhöndluð. Ef þunguð kona finnur fyrir einkennum þvagfærasýkingar á hún að skila þvagprufu til rannsóknar á heilsugæslustöðina til að athuga hvort sýking sé til staðar og fá lyf ef við á.

Sólhattur

Sólhattur hefur verið notaður við ýmsum kvillum en líklega mest til að fyrirbyggja kvef og öndunarfærasýkingar. Aukaverkanir af völdum sólhatts til inntöku eru sjaldgæfar en þar sem þekkingu um áhrif sólhatts á meðgöngu og við brjóstagjöf er ábótavant er notkun hans ekki ráðlögð við þær aðstæður.

Gingseng

Ginseng notkun hefur aðallega verið með tvennum hætti. Annars vegar stutt notkun til að auka úthald, einbeitingu og vinnugetu í heilbrigðum einstaklingum og hins vegar langvarandi notkun til að bæta líðan veikra einstaklinga og aldraðra. Samsetning innihaldsefna í ginseng er mjög mismunandi þannig að mjög erfitt er að meta áhrif og öryggi ginseng vara. Greint hefur verið frá mörgum aukaverkunum af völdum gingseng, meðal annars svefnleysi, háþrýstingi, niðurgangi, húðútbrotum, óróleika, eymslum í brjóstum og blæðingu í legi. Ekki skal nota ginseng á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

Fæðubótaefni sem eiga að örva brennslu

Eitthvað er um að konur spyrjist fyrir um hvort þær megi taka efni til að auka brennslu meðan þær eru með barn á brjósti. Svarið er einfalt, nei. Í slíkum fæðubótarefnum geta verið efni sem eru skaðleg fyrir barnið og/eða móðurina. Efni sem eru vinsæl í vörum til að auka brennslu eru til dæmis efedrín og koffein. 

Efedrín

Efedrín er ólöglegt efni sem má alls ekki nota á meðgöngu eða við brjóstagjöf. Efedrín kemur úr Ephedra plöntum (ma huang) og er ætlað að örva og auka orku en neysla þess getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Dæmi um aukaverkanir af völdum fæðubótaefna með efedríni eru: hækkaður blóðþrýstingur, hraður hjartsláttur, heilablóðfall, hjartaáfall, kvíði, skjálfti, svefnleysi og persónuleikabreytingar. Alvarlegar aukaverkanir geta átt sér stað við litla skammta og/eða eftir stutta notkun. Efedrín og pseudoefedrín hafa örvandi áhrif á leg og geta ofvirkni, óþol og hraður hjartsláttur komið fyrir hjá fóstri eftir neyslu móður en efedrín hefur einnig áhrif á ungabörn. Því skal alls ekki nota fæðubótaefni með efedríni á meðgöngu og við brjóstagjöf.

Koffein

Koffein er til staðar í mörgum fæðubótaefnum sem eiga að örva brennslu. Koffein hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið, eykur hjartslátt, víkkar æðar og lungnaberkjur og eykur þvaglát. Mikil koffeinneysla þungaðra kvenna virðist stuðla að fósturskemmdum og minni fæðingarþyngd nýbura. Athuga þarf að efni sem kallast Guarana extrakt er algengt í fæðubótaefnum sem eiga að örva brennslu en það inniheldur mikinn styrk af koffeini. Í mörgum orkudrykkjum er talsvert magn af koffeini sem og Guarana og því skulu ófrískar konur forðast notkun þeirra meðan á meðgöngu stendur.

Grænt te

Grænt te er lagað úr þurrkuðu fersku telaufi en svart te úr telaufi sem hefur gerjast og dökknað áður en það er þurrrkað. Grænt te hefur verið notað við meltingarfæratruflunum, sem vatnslosandi, til þess að auka einbeitingu og fyrirbyggja krabbamein. Teið hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfi vegna koffeins og því er hvorki mælt með mikilli eða langvarandi notkun. Tilkynnt hefur verið um ýmsar aukaverkanir af völdum tesins, meðal annars óæskileg, örvandi áhrif svo sem kvíða, skjálfta, óróa og svefntruflunanir en einnig höfuðverk, háþrýsting, ertingu í magaslímhúð og aukinni þvaglosun. Ófrískar konur eiga að takmarka inntöku á koffeini og því forðast mikla drykkju tesins.

Eitthvað er um að konur spyrji hvort þær megi nota Herbalife á meðgöngu eða við brjóstagjöf. Mjög mörg mismunandi efni eru í Herbalife vörunum og því á það sama við um Herbalife og önnur náttúruefni/fæðubótaefni. Þeirra á ekki að neyta á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

Fjöldi náttúruefna og fæðubótaefna á markaðnum er nánast óteljandi og er ógjörningur að telja þau öll upp hér. Ekki eru alltaf viðvaranir á umbúðum um að ekki megi taka efnin á meðgöngu eða við brjóstagjöf. Þegar viðvaranir sem slíkar eru til staðar skal hafa í huga að þær eru ekki einungis leið framleiðandans til að sleppa við málsóknir heldur staðreynd um að efnin hafi ekki verið nægjanlega rannsökuð. Mörg náttúruefni geta haft áhrif á tíðahring, hafa ýmist örvandi eða slakandi áhrif á leg og geta skapað hættu á fósturláti. Því skal það endurtekið sem að ofan sagði að þungaðar konur og konur með barn á brjósti eiga ekki að nota náttúruefni eða fæðubótaefni nema í samráði við lækni.

Ólöf Þórhallsdóttir
lyfjafræðingur
olofth@visir.is

Höfundur veitir nánari upplýsingar um heimilidir o.þ.h. ef þess er óskað.

Eftir lyfjafræðing